Ágrip

Leiðbeiningar og reglur um
innsendingu ágripa fyrir
Hjúkrun 2023

Markmið ráðstefnunnar Hjúkrun 2023 er að miðla þekkingu á sviði hjúkrunarfræði. Kallað er eftir ágripum um rannsóknarniðustöður, þróunar- og gæðaverkefni, stöðu þekkingar á ákveðnum sviðum, aðferðafræði eða tilfellakynningu.  Efni ágripsins þarf að byggja á fræðilegum grunni og bæta við þekkingu innan hjúkrunarfræði eða starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga.

Hægt er að velja um eftirfarandi tegundir kynninga:

  1. Erindi: 15 mínútna kynning og 3 mínútur í umræður (samtals 18 mín).
  2. Veggspjaldakynning: 3 mínútna framsaga og 2 mínútur í umræður (samtals 5 mín). Veggspjald er sent inn rafrænt á einni Power Point slæðu.
  3. Málstofa: Send eru inn 2-4 ágrip um efni sem tengist innbyrðist og við innsendingu er merkt við „málstofa“ og skráð heiti hennar. Höfundar koma sér saman um málstofustjóra og hópurinn hefur til umráða 60 mínútur sem skiptast í kynningar/fyrirlestra og samræður.
  4. Opið er fyrir innsendingu ágripa á tímabilinu 1. mars til og með 15. maí 2023. Öll ágrip eru lesin af tveimur aðilum. Niðurstöður verða tilkynntar í júní 2023.

Leiðbeiningar um ágrip:

  1. Ágrip skulu að jafnaði vera á íslensku ef fyrirhuguð kynning verður á íslensku. Ágrip skal senda inn í leturstærð 12 p New Times Roman og með einföldu línubili. Samþykkt ágrip eru birt eins og þau eru send inn, í rafræna ágripabók. Vandið því málfar og stafsetningu.
  2. Titill ágrips skal endurspegla efnisinnihald þess. Hámark 50 orð.
  3. Ágrip eru að hámarki 300 orð (titill ekki meðtalinn). Þau  skulu skiptast í eftirfarandi kafla og hafa skal þær fyrirsagnir með í ágripinu:
    1. Fyrir annað en tilfellakynningar:
      • Inngangur
      • Tilgangur
      • Aðferð
      • Niðurstöður
      • Ályktanir
      • Lykilorð (3-5)
    2. Fyrir tilfellakynningar:
      • Kynning á sjúklingi
      • Forsaga
      • Greining og meðferð
      • Afdrif/eftirfylgni
      • Ályktanir – lærdómur
      • Lykilorð (3-5)

Nánar um tilfellakynningar:

Tilgangur tilfellakynninga er að gefa hjúkrunarfræðingum sem vinna með sérhæfð sjúkratilfelli kost á að kynna vinnu sína með slíka einstaklinga. Áhersla er á umræður um greiningu/kortlagningu vanda viðkomandi skjólstæðings/sjúklings og þörf fyrir hjúkrun, almennu og sértæku heilsufarsmati og ekki síst rökstuddu vali á meðferð, faglegum forsendum hennar, skipulagi, lýsingu á framkvæmd og mati á árangri.

Höfundar bera ábyrgð á að afmá allar persónugreinanlegar upplýsingar og fá samþykki viðkomandi sjúklings/skjólstæðings og eftir atvikum annarra.

Leiðbeiningar um höfunda

Fyrsti höfundur er sá sem heldur kynninguna og sá sem haft verður samband við af hálfu ráðstefnunnar. Nöfn meðhöfunda fylgja á eftir og geta skal vinnustaðar allra höfunda.

Leiðbeinendur skulu vera meðhöfundar ágripa um lokaverkefni nemenda.

Annað

Að jafnaði skal aðeins senda inn eitt ágrip úr hverju verkefni. Bent er á möguleika að sækja um málstofu ef um fleiri ágrip er að ræða sem tengjast innbyrðis. Annars skal óska eftir einu erindi og einu veggspjaldi.

Töflur, myndir eða tilvísanir í heimildir eiga ekki heima í ágripi.

Vísindanefnd áskilur sér rétt til að ákveða hvort ágrip verði kynnt sem erindi, málstofa  eða veggspjald.